Aðalfundur foreldrafélags leikskólans Grænuborgar
8. október 2009 kl. 8:30 á leikskólanum Grænuborg
Dagskrá:
1. Skýrsla um starfsemi félagsins
2. Reikningar félagsins
3. Kosning til stjórnar
4. Tillaga um breytingu á lögum foreldrarfélagsins
5. Ákvörðun um félagsgjöld
6. Önnur mál
16 manns mættu á aðalfund félagsins sem haldinn var í sal leikskólans.
1. Skýrsla um starfsemi félagsins
Undirrituð las skýrslu um starfsemi félagsins frá síðasta starfsári.
2. Reikningar félagsins
Yfirlit yfir stöðu reikninga félagsins lagt fram. Samþykkt.
3. Kosning til stjórnar
Skýrt frá því hverjir gáfu sig fram á foreldrafundum í september til að starfa í stjórn foreldrafélagsins. Undirrituð sem verið hefur formaður síðasta ár lætur af því starfi en stjórn mun skipta með sér verkum á næsta fundi sem verður fyrsta þriðjudag í nóvember kl. 16.
4. Tillaga um breytingu á lögum foreldrarfélagsins
Lögð fram tillaga stjórnar um að breyta 8. gr. laga félagsins vegna nýs fyrirkomulags leikskólans við að halda foreldrafund á haustin.
Er núna: 8. gr. Starfstímabil félagsins er skólaárið. Aðalfundur er haldinn samhliða foreldrafundi leikskólans á hverju hausti. Fundur sá er haldinn á tímabilinu september-október.
Breyta í: 8. gr. Starfstímabil félagsins er skólaárið. Aðalfundur er haldinn á hverju hausti á tímabilinu september-október.
Samþykkt einróma.
5. Ákvörðun um félagsgjöld
Ný stjórn lagði til hækkun á félagsgjöldum til samræmis við félagsgjöld annarra leikskóla af sömu stærð og Grænaborg. Lagt til að hækka úr 2000 kr fyrir misserin, samtals 4000 kr. fyrir starfsárið á hvert barn. Hækkað í 2500 kr fyrir misserin, samtals 5000 kr fyrir barn. Að auki leggist ofan á gjald foreldrafélagsins innheimtukostnaður sem verður við að breyta innheimtufyrirkomulagi og setja inn í bankana. Það fyrirkomulag hentar félaginu betur og talið að betri innheimtur fáist. Að auki lagt til að bjóða upp á systkinaafslátt, 50% lækkun á gjöldum til foreldrafélagsins fyrir systkini, foreldrar með 2 börn á leikskólanum borga því 7500 kr samtals fyrir árið fyrir tvö börn. Samþykkt einróma.
6. Önnur mál
Fram kom athugasemd við að leikskólinn hefði nýverið keypt Bónusbrauð í stað mun betra brauðs sem börnunum hefði almennt verið boðið til þessa. Sú skoðun viðruð að foreldrafélagið gæti veitt peningum til þess að betra brauð væri keypt. Leikskólastjóri svaraði að hér hefði verið um algjöra undantekningu að ræða en vissulega væri aðhald í matarinnkaupum þessi misserin í leikskólanum. Nú væri hins vegar nær allt brauð bakað í leikskólanum.
Fram kom hugleiðing hvort að foreldrar gætu komið aktífir inn í skólann og aðstoðað t.d. á tímum þegar vantaði starfsfólk. Umræða skapaðist í framhaldi af þessu um hvað væri eðlilegt og óeðlilegt í þessu samhengi gagnvart því að leikskólinn er vinnustaður sérmenntaðs fólks og ekki rétt að foreldrar geti hlaupið í störfin. Fram kom sú athugasemd að ekki myndi öllum foreldrum hugnast að aðrir en starfsfólk skólans sinnti börnum þeirra í leikskólanum. Leikskólastjóri sagði að það hefði verið rætt á foreldrafundi á einni deildinni sá möguleiki að koma upp lista með nöfnum foreldra sem gæfu kost á sér í slíka vinnu, t.d. útiveru á leikvellinum. Engin niðurstaða kom í umræðuna önnur en sú að leikskólastjóri ætlar að ræða hugmyndina við starfsfólk skólans.
Fram kom vilji til að skoða hvort að foreldrar barna gætu komið virkir inní vinnu sem hingað til hefur verið aðkeypt og þannig létt á rekstrarkostnaði skólans. Að sama skapi var bent á að slíkt gæti orkað tvímælis.
Fram kom vilji stjórnar fyrir næsta starfsár að vera í nánu samstarfi við leikskólastjóra og starfsfólk allt í að stuðla að góðu starfi þrátt fyrir aðhald og skerta fjármuni. Stjórnin muni leggja sitt af mörkum til að vinna með starfsfólki skólans að því að starfsemi hans geti blómstrað sem endranær, börnum okkar og starfsfólki til góðs.
Fundi lauk kl. 9:10
Harpa Þórsdóttir ritaði fundargerð