Aðventan

 

Jólastarfið er hafið í skólanum og hafa nú þegar allar deildir bakað piparkökur og skreytt. Piparkökukaffi fyrir foreldra var á Mána-, Stjörnu- og Sólskinsdeildum í nýliðinni viku og voru það mjög notalegar stundir! Föndur, spjall og piparkökusmakk!
Á mánudaginn munu svo Droparnir halda sitt boð.
 
Við munum leggja áherslu á rólegheit og útiveru næstu daga, veitir ekki af sem smá mótvægi við þá tilhlökkun sem hefur hreiðrað um sig í ungum hugum!
 
Við syngjum líka jólalög við hvert tækifæri og gerum okkur dagamun á margskonar hátt.
Kaffihúsaferðir og gönguferðir verða auglýstar frekar á hverri deild fyrir sig.
 
17. desember verður jólaleikrit í skólanum og jólaballið okkar verður 19. desember.
 
Við stefnum á að hafa desember notalegan og ljúfan fyrir börn og fullorðna í Grænuborg!
Aðventukveðjur,
 
Grænuborgarar (",)

Frétt vikunnar - Stjörnudeild

Við á Stjörnudeild áttum að sjálfsögðu frábæra viku!

Við fórum eftir að mestu eftir stundaskrá vikunnar, en það sem ber hæst
að nefna er að allir hópar fóru í göngutúr í þema á fimmtudag. Öllum
finnst ótrúlega spennandi að fara í göngutúr og fór guli hópur að skoða
Barnaspítalann og stóra fiskabúrið þar (og fundu þar Nemo), og síðan
labbaði hópurinn að Blóðbankanum og fræddist um hvað þar færi fram.
Græni og rauði hópur fóru saman í göngutúr niður í bæ að skoða
styttur í búðargluggum (gínur) og velta fyrir sér líkama þeirra. Sumar
höfðu engan haus, aðrar voru handa- og/eða fótalausar og svo
framvegis. Ótrúlega skemmtilegt!

Í lok vikunnar vorum við síðan öll í appelsínugulum fötum og voru
sannkölluð veisluhöld þar sem við fengum ÍS í eftirmat í hádeginu og
Theódór Ísar hélt upp á 4 ára afmælið sitt í kaffitímanum og gaf okkur
súkkulaðiköku:) Til hamingju með daginn Theódór!!!

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi!
Fyrir hönd Stjörnudeildar,
Anna Berglind deildarstjóri

Fréttir út starfi

Það gengur allt sinn vanagang á Grænuborg. Vetrarstarf er nú komið í gang og fer þá allt að fara í fastari skorður eftir sumarið.

Hópastarf og Stóra-Val er komið úr sumarfríi. Listasmiðja og hreyfistundir eru einnig komin úr sumardvala. Tónlistin verður þó örlítið lengur í fríi þar sem Íris er að leysa Gerði af en hún er í síðbúnu sumarfríi.

Hér eru byrjaðir nokkrir nýjir starfsmenn og bjóðum við þau hjartanlega velkomin í hópinn! Um er að ræða Svanfríði Dóru (Svönu) á Sólskinsdeild, Jón Svavar á Stjörnudeild og Gunnar Héðinn í stuðning og afleysingar. Vonum við að þau eigi eftir að vera sem lengst í starfsliðinu með okkur!!

Nú þegar bleytan er í algleymingi úti biðjum við ykkur að vera vakandi fyrir að börnin séu með aukaföt til skiptanna og eins að kíkja á pollagallana í lok hvers dags þar sem stundum láta þeir á sjá eftir drullumallið;)


Foreldravefur