Kæru vinir!
Enn ein vikan á enda og einkenndist hún af eftirfarandi:
Á mánudag var sannarlegur sullódagur þar sem 12 börn fóru að sulla.
Á þriðjudag var Listasmiðja með Mörtu. Þar fengu börnin að skreyta fyrirfram tilbúnar álfagrímur, í anda þemans um Benedikt búálf. Þau pensluðu lími á grímurnar og settu pappaskraut, glimmer og fjaðrir á þær. Síðan léku þau með grímurnar mest allan daginn og fóru svo með þær heim. Þetta sló alveg í gegn enda eru sögurnar um hann Benedikt það allra vinsælasta á deildinni :) Hann Óðinn átti síðan 4 ára afmæli þennan dag og gaf okkur kleinur og köku í tilefninu :)
Á miðvikudag var frjáls tónlistartími. Þá fengu börnin að velja sjálf hvað þau vildu gera í tímanum, mjög lýðræðislegt allt saman. Þar sem hópurinn er svo samheldinn þá völdu þau sér allir afar svipuð viðfangsefni. Börnin völdu sér að spila á hljóðfæri, bæði með og án söngs og horfa síðan á youtube tónlistar og dansmyndbönd þar sem þau dönsuðu með. Sem sagt; söngur, spil og dans.
Á fimmtudag féllu þema og hreyfistund niður því miður vegna veikinda á starfsfólki. Þess í stað fórum við út að leika fyrir hádegi og lékum frjálst í salnum eftir hádegi og eftir kaffi.
Á föstudag var Söngsalur og Stóra val eins og venja er. Þetta var líka bókadagur til heiðurs Degi íslenskrar tungu sem haldinn er á laugardag. Hann Styrmir Örn átti síðan 4 ára afmæli þennan dag og gaf hann okkur frábæran jólasveinaís í tilefninu :)
Rétt er að taka fram að einhver bilun hefur komið upp á myndasíðu Grænuborgar, þar sem allar myndir hafa dottið þaðan út. Við erum að vinna í málinu hjá viðkomandi vefþjónum. En núna eru þar myndir frá þessari viku svo endilega skoðið :)
Takk fyrir vikuna!
Bk, Anna Begga deildarstjóri Stjörnudeildar
Góð vika að baki á Stjörnu!
Á mánudag var frjáls leikur úti og inni.
Á þriðjudag var Listasmiðja með Taniu þar sem börnin æfðu sig að klippa og líma á Daða dreka sem nú er í býgerð. Í vikunni fengu börnin líka að líma handaförin sín á drekann sem eru gaddarnir á bakinu hans.
Á miðvikudag var Tónlistartími
með Önnu Beggu sem bar yfirheitið hlustun og hljóðfæri. Í þessum tíma fengum við að hlusta á alls kyns hljóðfæri og giska á hver þau væru. Eftir að hafa giskað fengum við að sjá spilað á þau og við ræddum síðan hvernig þessi hljóðfæri létu okkur líða í hjartanu. Við vorum bæði glöð, leið, reið, sorgmædd og æst við músík þessara hljóðfæra. Þetta var allt gert með hjálp youtube.
Hljóðfærin sem við lærðum voru: Fiðla, píanó, gítar (kassa- og rafmagnsgítar), þverflauta, trompet, trommur og selló. Að endingu horfðum við svo á tónleika Metallica og sinfó og sáum þar hvernig öll þessi hljóðfæri geta spilað saman, og við dönsuðum rokkdans með!
Á fimmtudag var auðvitað þema og hreyfistund:
Þema: Upprifjun og leikræn tjáning
Vegna fjölda fyrirspurna og gífurlegs áhuga var þessi tími tileinkaður fyrstu bókinni af Benedikt búálfi. Við lásum söguna saman og börnin fylltu í allar eyður sem mynduðust.
Að þessu loknu fengu allir að velja sér einhverja sögupersónu í bókinni og leika hana fyrir hina á meðan lag persónunnar var spilað af geisladisknum um Benedikt búálf. Við vorum misfeimin við að sýna fyrir framan aðra og sumir vildu það bara alls ekki. Þetta verður því eitthvað sem við munum æfa áfram J Í endann breyttust síðan allir í Tóta tannálf og sungu og dönsuðu saman við lagið hans, en við höfum mikið verið að æfa okkur við það lag í samverustundum.
Hreyfistund: Þrautabraut.
Byrjað var á að fara í stoppdans með mottum. Síðan tók við þrautabraut sem fókusaði á jafnvægi og þol (til dæmis að labba eftir jafnvægisslá, klifra upp á og hoppa niður, skríða gegnum göng, hoppa milli motta og fleira). Börnin fóru gegnum brautina bæði áfram, aftur á bak og á hlið. Að endingu voru teknar teygjur.
Á föstudag var Söngsalur og Stóra val eins og venja er.
Ég minni foreldra á regluna með að allt dót eða aukahlutir eigi að vera heima, en eitthvað hefur borið á því að óæskilegir hlutir læðist með í leikskólann.
Kíkið svo á myndir á heimasíðu Grænuborgar!
Bk, Anna Begga deildarstjóri Stjörnudeildar
Sælir kæru vinir!
Nú hefur formlegt vetrarstarf á borð við skipulagðar þema- og hreyfistundir tekið enda og því vorum við mikið í útiveru og frjálsum leik í vikunni. Við höldum þó Listasmiðjunni eitthvað áfram, ásamt söngsal og stóra vali og þess háttar.
Veðrið lék við okkur fyrri part vikunnar og því voruð við nær einungis úti þann tíma. Við fórum samt í Listasmiðju á þriðjudag þar sem við tókum fyrir þema um jörðina. Þar föndruðum við með efniviðinn sem við týndum út í garði um daginn. Við máluðum og settum glimmer á steinana sem við týndum, og límdum laufblöð, sand, mold og litla steina á blöð.
Á fimmtudag lékum við og dönsuðum í salnum á milli þess sem við fórum út að leika. Á föstudag var síðan blár dagur á Stjörnudeild og var gaman að sjá mismunandi útgáfur af bláum fatnaði :) Við fórum síðan auðvitað í söngsal og stóra val þann dag.
Þar sem veðrið er afar breytilegt varðandi hitastig þessa dagana er gott að hafa allan fatnað með á leikskólann, það er pollagalla og stígvél, kuldagalla og kuldaskó og hlýja peysu og úlpu.
Myndir komu í tölvupóst
Kærar þakkir fyrir vikuna!
Anna Begga, Frikki og Tania
Eiríksgata 2, 101 Reykjavík
411-4470
graenaborg@rvkskolar.is
Sendu okkur póst
Innskráning