-
Afmæli
Þegar börnin eiga afmæli búa þau til afmæliskórónukórónu. Í hádeginu og í kaffitímanum fá þau að velja sér afmælisdisk og afmælisglas, og auðvitað er sungið fyrir afmælisbarnið.
-
Leikskólataskan - hvað á að vera í henni?
Þar þarf að vera:
- Aukasett af fötum, frá a - ö.
- Hlý peysa, húfa og vettlingar og þykkir sokkar.
- Regnföt og eða kuldagalli eftir árstíma, athugið að stundum þarf hvort tveggja.
- Skór sem hæfa veðri og vindum.
-
Lyfjagjöf á leikskólatíma
Leikskólinn sér ekki um að gefa lyf sem börn fá til að taka í takmarkaðan tíma. Öll lyf sem barn þarf að taka að staðaldri svo sem astma lyf eða flogaveikislyf eru þó gefin í leikskólanum.
-
Opnunartími leikskólans
Leikskólinn er opinn alla virka daga frá kl. 7.45 - 17.00. Lokað er alla rauða daga, auk þess sem lokað er 6 daga á ári vegna samstarfsdaga starfsmanna, þessir dagar eru í flestum tilfellum auglýstir á haustin.Ýmist eru þetta heilir eða hálfir dagar. Þegar lokað er hálfan dag lokar leikskólinn kl. 12.30, þá borða öll börnin kl. 11.45, hvíld fellur niður þá daga.
Varðandi sumarlokanir. Gert er ráð fyrir því að hvert barn í leikskólanum fari í fjögurra vikna samfellt sumarfrí. Leikskólinn lokar fjórar vikur á ári vegna sumarleyfa. Það er auglýst með góðum fyrirvara.
-
Slys á börnum
Ef barn slasar sig alvarlega í leikskólanum er hringt í foreldra þess og þeir beðnir um að fara með það á slysavarðstofuna, auðvitað er hringt í sjúkrabíl í þeim tilfellum sem það á við. Gert er að minni sárum á staðnum, er þá átt við skramur, kúlur og þess háttar. Almennt er gerð slysaskýrsla ef barn verður fyrir slysi innan skólans sem geymd er í leikskólanum.
-
Sumarfrí
Á vef Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur eru almennar upplýsingar um sumarfrí barna.
-
Veikindi barna
Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir því að veik börn séu heima. Miðað er við að þau börn sem koma í leikskólann geti tekið þátt í öllu daglegu starfi dagsins, bæði úti og inni. Veikist barn í leikskólanum er hringt í foreldra þeirra og þau beðin um að sækja börnin eins fljótt og kostur er. Hafi börn verið lasin heima í einhvern tíma geta þau fengið undanþágu frá útiveru í einn daga, þó ráðleggjum við foreldrum að hafa samband við deild barnsins að hringja í leikskólann til að athuga hvort mögulegt er að halda barninu inni viðkomandi dag. Ekki er gert ráð fyrir að börn séu inni sem fyrirbyggjandi ráðstafanir.
-
Velkomin í leikskólann
Gert er ráð fyrir 75 börnum samtímis í leikskólanum Grænuborg, á aldrinum tveggja til sex ára. Þau skiptast niður á fjórar leikskóladeildir eftir aldri barnanna. Það eru 13-24 börn saman á deild ásamt 3 - 4 starfsmönnum. Þegar barn kemur nýtt inn í leikskólann þá er gert ráð fyrir 3 - 5 dögum í aðlögun fyrir barnið. Á þeim tíma hefur barnið og foreldrar þess tækifæri til að kynnast hinum börnunum, starfsfólki deildar og fundið öryggið á staðnum. Þegar barn byrjar í leikskólanum þá þurfa foreldrar að velja tíma fyrir barnið, en leikskólinn er opinn frá kl. 7.45 - 17.00 á daginn. Gerður er dvalarsamningur þar sem fram kemur sá tími sem foreldrar telja heppilegan fyrir barnið í leikskólanum. Gott er fyrir nýja foreldrar að renna yfir námskrá leikskólans, foreldrahandbók sem og starfsáætlun. Í foreldrahandbók og námsskrá má sjá allar almennar upplýsingar um leikskólann, fyrir hvað hann stendur og almennar reglur innan hans.
-
Vistunartími og gjaldskrá
Þegar barn byrjar í leikskólanum er gerður dvalarsamningur, á honum kemur fram hvaða dvalartíma foreldrar telja heppilegan fyrir barnið, miðað við vinnutíma foreldranna. Þetta geta verið 4 - 9 stundir yfir daginn.
Hér er hægt að nálgast gjaldskrá fyrir leikskóla Reykjavíkur